Erum við orðin algerlega huglaus þjóð?

Ég leyfi mér að ítreka hér grein okkar Ragnars Ólafssonar í MBL fyrir þremur vikum:

Hvers konar þjóð erum við eiginlega?

Um þessar mundir eru margir að ýta undir það sjónarmið að nú verði bara að klára Icesave málið. Þjóðin sé orðin svo  þreytt á málinu og kominn tími til að horfa fram á veginn. Þeir sem taka undir þennan málflutning eru þá væntanlega að tala fyrir því að Íslendingar gangi möglunarlaust að ýtrustu kröfum Breta og Hollendinga. Kröfum sem þeir fylgja staðfastlega eftir með ofbeldisfullum aðgerðum í garð þjóðar okkar.

Íslendingar hafa gengið að öllum kröfum Breta og Hollendinga.

Fólk ætti frekar að spyrja sig hvernig við misstum sjónar á því að þrátt fyrir fyrirvarana á ríkisábyrgðinni höfum við í raun gengist við illa rökstuddum kröfum andstæðinga okkar að fullu. Þrátt fyrir fyrirvarana þá mun íslenskur almenningur nefnilega greiða tap evrópskra sparifjáreigenda sem lögðu fé sitt inn á hávaxta innlánsreikninga banka í einkaeigu. 

Þrátt fyrir fyrirvarana á Icesave skuldabréfinu er algerlega látið hjá líða að gera þá sjálfsögðu kröfu til Breta og Hollendinga að þeir bæti Íslendingum þann skaða sem hlaust af yfirtöku þeirra á eigum íslendinga.

Þrátt fyrir fyrirvarana gera Íslendingar engar kröfur um bætur vegna ummæla Gordon Browns og Alistair Darlings um Íslendinga í alþjóðlegum fjölmiðlum. Ekki verður heldur vart við kröfu um að tillit verði tekið til beitingar hryðjuverkalaga gegn íslenskri þjóð.

Síðast en ekki síst sættum við Íslendingar okkur vel við það  að Bretar og Hollendingar beiti fyrir sig Alþjóðlega gjaldeyrissjóðnum til að neyða okkur til þess að gangast við lagalega hæpnum kröfum þeirra.

Það eina sem Íslendingar hafa auðmjúklega beðið Breta og Hollendinga um að gefa eftir er það að fá að greiða þessar kröfur með þeim hætti að efnahagskerfi þjóðarinnar leggist ekki í rúst og að greiðslurnar taki einhverntíma enda. En nei það gengur ekki. Þetta geta Bretar og Hollendingar ekki sætt sig við.

Ábyrg hegðun gagnvart einelti?

 Þeir sem tala um að Íslendingar eigi nú að sýna ábyrga hegðun í samfélagi þjóðanna, gangvart þessum yfirgangi Breta og Hollendinga, hljóma orðið eins og barn sem verður fyrir einelti en reynir að réttlæta og breiða yfir gerðir kvalara síns.

Við þurfum að geta tekið þátt í samfélagi þjóðanna, segja sumir. Sú afstaða þýðir þá væntanlega að þátttaka í samfélagi þjóðanna feli í sér að ekki megi vísa í lög og reglur og fá úrskurð hlutlausra dómstóla um ágreiningsefni. Í slíku samfélagi eigi almennt að ganga, án mótmæla, að kröfum stærri og voldugra þjóða. Eða alla vega þjóða sem geta og viljafylgja málstað sínum eftir með ofbeldisfullum aðgerðum?

Hver er kjarninn í málflutningi Breta og Hollendinga?

Kjarninn í málflutningi mótherja okkar í Icesave deilunni virðist vera sá að íslenskum stjórnvöldum beri að taka á sig allar útistandandi skuldbindingar tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta eða m.ö.o. að til staðar sé ríkisábyrgð á tryggingasjóðnum. Þetta er alger firra og stenst engan veginn grundvallarreglu Evrópusambandsins um jafnræði á markaði . Ef gengið er út frá því að bankar starfi í skjóli ríkisábyrgðar á innstæðutryggingum leiðir það til þess að bankar stjórra Evrópuþjóða geta boðið upp á margfalt öruggari innstæðutryggingar en bankar minni landa. Slíkt myndi skekkja verulega samkeppni banka á grundvelli uppruna.  Í stað þess að horfast í augu við þennan augljósa galla og laga hann, t.d. með því að samtengja innistæðutryggingakerfi Evrópu eða taka sameiginlega á vanda okkar, þá hafa Evrópuþjóðir ákveðið að fórna íslenskum skattgreiðendum. Gera ófarir þeirra að víti öðrum til varnaðar.

Hvernig útskýrum við þetta fyrir börnum okkar?

Það undarlegasta við þetta Icesave mál er að ríkisstjórn okkar hefur engan veginn veitt eðlilega mótspyrnu gagnvart þessari aðför að hagsmunum Íslendinga. Þvert á móti virðist hún leggja meiri áherslu á að flytja málstað mótherja okkar heldur en málstað íslensks almennings.

Það að halda uppi málsvörn þjóðarinnar hefur nánast eingöngu hvílt á ólaunuðum áhugamönnum um þjóðarhag. Hvernig eigum við eiginlega að við útskýra þennan aumingjahátt stjórnvalda fyrir börnum okkar í framtíðinni? Við bara spyrjum? Að hver fjölskylda eigi að greiða Bretum og Hollendingum 600.000 krónur á hverju ári í átta ár (2016 til 2024) í erlendum gjaldeyri, einungis vegna þess að við höfðum ekki dug né kjark í okkur til að standa í fæturna gegn kúgun breskra og hollenskra stjórnvalda. Erum við Íslendingar nú í byrjun 21. aldar virkilega orðnir svo illa farnir af góðæri síðustu ára að við höfum ekki lengur nennu eða getu til að verja hagsmuni og fullveldi þjóðar okkar gagnvart kröfum sem byggja hvorki á traustum lagalegum né siðferðislegum grunni?

Erum við orðin algerlega huglaus þjóð?

 

Ólafur Elíasson, tónlistarmaður.

Ragnar F. Ólafsson, félagssálfræðingur.


mbl.is Lagalegir fyrirvarar halda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er þvílík skömm að ráðmenn þjóðarinnar geti ekki barist fyrir hagsmunum Íslands og fyrir heiðri og sóma Íslensku þjóðarinnar.

Engin þjóð með vott af stolti og sjálfsvirðingu getur sætt sig við þá niðurlægingu sem felst í þessum "samningum".  Snúast verður til varnar, ellegar er það til lítils að halda hér áfram sem sjálfstæð þjóð. Sjálfstæði er ekki fyrir þá sem gefast upp strax gagnvart kúgunum og hótunum.

Bjarni Hafsteinsson (IP-tala skráð) 18.10.2009 kl. 13:53

2 identicon

Ósvífni óstjórnar landsins hefur alls engan endi.    Fjöldi landsmanna hefur gert allt í sínu valdi til að stoppa kúgunina.   En nei, óstjórnin lagðist kylliflöt fyrir kúgurunum og ætlar ekki að standa aftur upp.   Og þetta gerir óstjórnin þó þorri landsmanna sé algerlega andvígur Icesave-nauðunginni, með nokkrum aumum undartekningum sem vilja endilega láta kúga okkur og borga offjár fyrir ímyndað orðspor í heiminum:  Nánar túlkist sem Evrópu-kúgunar-bandalagið sem er þó bara 8% heimsins. 

Og þetta gerir óstjórnin þó lagalega höfum við enga skuldbindingu við Icesave.   Við hin sem erum andvíg Icesave-nauðunginn getum ekki leyft þessu að gerast og ættum að kæra þessa stjórn.   Það mun verða okkur óbærilegt að lifa við slíka kúgun og nauðung og vitandi það að börnin okkur munu gjalda gunguskapar og heimsku stjórnvalda.  

ElleE (IP-tala skráð) 18.10.2009 kl. 13:55

3 identicon

Nokkrar stafsetningarvillur komu þarna víst í flýtinum og læt þær standa. 

ElleE (IP-tala skráð) 18.10.2009 kl. 14:02

4 identicon

RÓL, það er einfalt í í Ítreka

Örn (IP-tala skráð) 18.10.2009 kl. 21:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ólafur Elíasson

Höfundur

Ólafur Elíasson
Ólafur Elíasson

Ég er píanóleikari og tónlistarkennari. Ég lærði klassískan píanóleik, fyrst í París og síðar í London við Royal Academy of Music. Ég hef einnig lokið MBA námi í viðskiptafræðum frá Háskóla Íslands. Undanfarna mánuði hef ég starfað með InDefence hópnum sem hefur m.a. haft það að markmiði að verja hagsmuni Íslendinga m.a. með því að stuðla að málefnalegri umræðu um Icesave samningana. Hópurinn starfar á ópólitískum forsendum

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband